Kristjana og Einar

Hjónin Einar Pálsson og Kristjana Jónsdóttir búa á Sólbyrgi á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði. Þangað fluttu þau frá Vestmannaeyjum árið 2008, þegar þau keyptu gróðrarstöðina. Einar var sjómaður í Eyjum, en hann hafði lengi dreymt um að búa í sveit. Þau hjónin stefndu að því að fara út í hefðbundinn búskap og höfðu leitað lengi að bújörð. Þegar þeim bauðst að kaupa Sólbyrgi ákváðu þau að gerast garðyrkjubændur. Staðurinn heillaði þau og garðyrkjustöðin, sem stendur á um 10 hektara landi, er vel í sveit sett og stutt í skóla fyrir börnin.

Einar lauk prófi frá Garðyrkjuskólanum stuttu eftir að þau hjón fluttu á Sólbyrgi. Þegar hann tók við stöðinni voru þar nær eingöngu ræktaðar gulrætur. Hann nýtti sér þekkingu sýna á ræktun og hóf mikla uppbyggingu og breytingar í samræmi við nýjustu kröfur í ylrækt. Nú eru aðallega ræktuð jarðarber á Sólbyrgð, en einnig kirsuberjatómatar, salat, kryddjurtir og einnig er þar nokkur útirækt.

Jarðarberjaræktin hófst af krafti á Sólbyrgi árið 2013. Einar segir skilyrði til að rækta jarðarber mjög góð og þakkar það vatninu, sem hann segir að sé margfalt betra en þekkist hjá ræktendum erlendis. Hann vill einnig þakka vatninu það hversu einstaklega bragðgóð íslensku jarðarberin eru. Húsin eru hituð upp með jarðvarma, hunangsflugur frjóvga plönturnar og lífrænar varnir eru notaðar. Einar segist líta svo á að íslenska garðyrkjan sé sú umhverfisvænsta í heimi því hún skilji ekki eftir sig kolefnisspor. Þau séu orðin æði mörg þegar grænmeti og ber séu komin hingað til lands frá suðlægum löndum.

Á Sólbyrgi eru jarðarberin tínd beint ofan í öskjurnar og bændur þar leggja mikla áherslu á að gæta fyllsta hreinlætis og nota hanska við berjatínsluna. Jarðarberin eru komin á markaðinn aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þau eru tínd.

Í einum bolla af jarðarberjum eru 50 kaloríur  og þau eru rík af C vítamíni. Berin geymast í 5 – 7 daga og kjörhiti á þeim er 4 – 8 °C. Upplagt er að frysta jarðarber.


Smellið á myndirnar til að stækka þær og skoða betur

Senda ß vin

Loka