Sveinn

Garðyrkjustöðin Víðigerði í Reykholti er ein elsta garðyrkjustöðin á landinu en þar hefur grænmetisræktun verið stunduð allt frá árinu 1939. Núverandi eigendur, Sveinn Magnús Andrésson og kona hans Jóna Ester Kristjánsdóttir,  þau tóku við rekstrinum árið 2001 og eru fjórðu eigendur stöðvarinnar. Sveinn ólst upp við garðyrkju en faðir hans ræktaði gulrætur í Deildartungu II og tók Sveinn svo við af honum. Víðigerði er næsti bær við Deildartungu II svo Sveinn fór ekki langt frá heimahögunum.

Fyrsta gróðurhúsið var reist í Víðigerði árið 1945 og er ennþá í notkun en Sveinn og Jóna rækta tómata í um 1300 fermetrum gróðurhúsa. Þau rækta einnig gulrætur úti sem þekja 6000 fermetra lands. Árlega framleiða þau 46 tonn af tómötum og í kringum 10 tonn af gulrótum. Býflugur sjá um að frjóvga tómatana og er lífrænum vörnum beitt að hluta. Tómatarnir eru ræktaðir í jarðvegi og undir lýsingu til að byrja með. Allt grænmetið er síðan vökvað með kældu hveravatni úr Deildartunguhver, sem er í nágrenni við garðyrkjustöðina.

Deildartunguhver er stærsti og vatnsmesti hver í Evrópu og gefur um 180 lítra vatns á sekúndu. Tvenn ársverk eru við Garðyrkjustöðina Víðigerði og svo kalla Sveinn og Jóna ættingjana  til á annatímum til að tína og taka upp.  Tómatarnir eru handtíndir þrisvar í viku og flokkaðir í höndunum áður en þeim er pakkað í Reykjavík. Gulræturnar eru einnig teknar upp í höndunum og flokkaðar áður en þeim er pakkað.

Smellið á myndirnar til að stækka þær og skoða betur

Senda ß vin

Loka