Hildur og Helgi

Hjónin Helgi Jakobsson og Hildur Ósk Sigurðardóttir reka garðyrkjustöðina Gufuhlíð í Reykholti. Þar rækta þau gúrkur og framleiða tæp 600 tonn á ári af gúrkum.

Gufuhlíð er fjölskyldufyrirtæki. Áður höfðu foreldrar Helga, Jakob Helgason og Birna Guðmundsdóttir, stundað garðyrkju á staðnum frá árinu 1965 en Helgi og Hildur komu inn í reksturinn árið 1997. Síðan hefur stöðin verið byggð upp, gróðurhúsin endurnýjuð og stækkuð og þekja nú um 3800 fermetra lands. Einnig var raflýsingu komið upp í öllum gróðurhúsunum svo nú er stunduð ræktun árið um kring en áður hafði einungis verið ræktað yfir sumartímann.

Helga og Hildi Ósk er umhugað um gæði framleiðslunnar. Þau stefna á að auka bæði magn og gæði ræktunarinnar í Gufuhlíð. Frárennsli frá vökvunarvatni er endurnýtt svo að næringarefni sem notuð eru við ræktunina fara ekki út í náttúruna.

Ræktunin í Gufuhlíð er vistvæn, gúrkurnar eru ræktaðar í vikri og er lífrænum vörnum beitt á plönturnar. Gróðurhúsin eru hituð upp með jarðhita sem fenginn er frá hitaveitu Bláskógabyggðar.

Gúrkurnar í Gufuhlíð eru tíndar sjö daga vikunnar, þeim pakkað á staðnum og fara sendingar fjórum sinnum í viku frá garðyrkjustöðinni til neytenda.


Smellið á myndirnar til að stækka þær og skoða betur

Senda ß vin

Loka