Monika og Fri­rik

Friðrik Rúnar Friðriksson er stærsti framleiðandi spergilkáls á Íslandi en hann byrjaði ungur að rækta tómata með afa sínum, Ágústi Eiríkssyni, á ræktunarstöðinni Ártúni við Selfoss.  Í Ártúni hóf Ágúst fyrstur manna að rækta tómatana eingöngu í vikri sem var þá sóttur beint í Heklu. Þar var líka stunduð útirækt á spergilkáli og hvítkáli. Friðrik Rúnar tók alveg við stöðinni árið 1987 og rak hana fram til ársins 2002 en þá hætti hann rekstri þar eftir jarðskjálftann árið 2000.

Friðrik Rúnar tók þá við sem rekstrarstjóri hjá Georg Ottóssyni á ræktunarstöðinni  Jörfa á Flúðum. Þar vinna þeir Georg og Friðrik náið saman og rækta fjölbreytt úrval af  grænmeti, bæði  í gróðurhúsum og í útirækt.

Á Flúðum kynntist Friðrik líka eiginkonu sinni, Moniku Domagala og rækta þau saman spergilkál á bökkum Hvítár. Þar er reynt að nota eins mikinn vistvænan áburð og kostur er. Þannig er búið að minnka tilbúinn áburð um 35 % og er sveppamassi frá Flúðasveppum notaður í staðinn. Sveppamassi er frjór jarðvegur sem sveppirnir vaxa í og er notaður í staðinn fyrir keyptan áburð.  Um 150 tonn af massa fara árlega á þrjá og hálfan hektara svæðis þar sem spergilkálið er ræktað. Vatn úr Hvítá er svo notað til þess að vökva ef rigningin ein nægir ekki. Í það eru notaðar öflugar traktorsdælur.

Á uppskerutímum vinna um 10 manns við spergilkálið og koma um 30 tonn upp úr jörðinni yfir sumarið. Það er langstærsta uppskera spergilkáls á Íslandi. Kálið er þó enn skorið upp með handafli þótt notað sé færiband til þess að koma því á vagn og traktor af stærri gerðinni til þess að koma því af ökrunum. Friðrik segir að fátt grænmeti sé jafn hollt og gott og spergilkálið og segir enn fremur að það sé sérlega einfalt að laga úr því súpu. Einungis þurfi að hella yfir það rjóma og krydda lítillega með salti og hita í potti. Þetta ku vera sú vinsælasta á Stór-Flúðasvæðinu.

Smellið á myndirnar til að stækka þær og skoða betur

Senda ß vin

Loka