Reitur

Dagur

Árið 2005 festi Dagur Andrésson kaup á garðyrkjustöðinni Reit á Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal. Á stöðinni sem stofnuð var árið 1978 hóf hann að rækta paprikur, en áður hafði þar að mestu verið tómata- og gúrkurækt. Tveimur árum síðar var stöðin stækkuð og er nú 2.300 fermetrar. Það ár hófst einnig ræktun í íslenskum vikri í stað jarðvegs.

Í Reit eru framleiddar paprikur frá miðjum apríl fram í lok nóvember og hefst ræktunin með sáningu í janúar. Á uppskerutímanum eru paprikur klipptar af plöntunum tvisvar í viku, þeim pakkað samdægurs og sendar til Sölufélags garðyrkjumanna að morgni næsta dags.

Lögð er áhersla á lífrænar varnir við ræktunina, auk þess sem býflugur eru notaðar við frævun blómanna sem stuðlar að stærri og safaríkari aldinum. Ársframleiðsla er um 46 tonn og má ætla að það séu um 220 þúsund paprikur.

Gróðurhúsin er hituð upp með vatni úr Kleppjárnsreykjahver en aðgangur að miklu magni af heitu vatni er frumskilyrði ylræktar af þessu tagi. Við ræktunina, auk áburðar og hreins vatns, er kolsýra (CO2) skömmtuð inn í gróðurhúsin til að örva aldinframleiðslu plantnanna. Allt þetta ásamt gnægð sólarljóss og vinnandi handa er efniviðurinn í paprikunum frá Reiti.

 

 

Staðsetning: Borgarfjörður
Uppskriftavefur

Hollar uppskriftir

Í samvinnu við helstu kokka landsins koma reglulega nýjar og hollar uppskriftir á uppskriftarvef Íslenskt.is. Fylgstu með og komdu þér í form.
Uppskriftavefur