Helena og Kn˙tur

Garðyrkjubændurnir Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir eru bæði úr Reykjavík en fluttu upp í sveit þegar þau voru 25 ára. Þau keyptu Friðheima í Reykholti árið 1995 og sameinuðu þar hrossabúskap og garðyrkju. 

Gróðurhúsin á Friðheimum þekja um 5000 fermetra. Upphaflega ræktuðu Knútur og Helena tómata, paprikur og gúrkur en árið 2002 settu þau upp lýsingu í gróðurhúsin og snéru sér eingöngu að tómatarækt. Með uppbyggingu á gróðurhúsunum vildu þau auka úrvalið á tómötum sem fást hér á landi og í dag rækta þau fjórar tegundir af tómötum. Hefðbundna tómata, plómutómata, konfekttómata og piccolotómata. Þau eru jafnframt einu garðyrkjubændurnir sem rækta plómu- og piccolotómata allt árið. 

Á Friðheimum hafa Knútur og Helena opnað býlið fyrir ferðamönnum. Í boði eru hestasýningar á glæsilegum reiðvelli og gróðurhúsaheimsóknir þar sem fólki  er boðið inn í gróðurhúsin til að fræðast um það hvernig við Íslendingar getum ræktað allt árið með aðstoð náttúrunnar. Það nýjasta hjá þeim er svo matarupplifun. Þar er gestum boðið inn á veitingastað, sem er inni í gróðurhúsinu, umvafinn tómatplöntum og er opinn allt árið. Boðið er upp á rómaða tómatsúpu og nýbakað brauð sem og aðrar heimalagaðar kræsingar. Með þessu hefur hjónunum tekist að nýta alla uppskeruna þar sem ekki allir tómatar komast á markað sem fyrsti flokkur vegna útlitsgalla. Fólk hefur svo möguleika á að taka bragðið með sér heim úr Litlu tómatabúðinni sem er í andyri veitingastaðarins þar sem ýmsar vörur eru til sölu, en allt er unnið og pakkað á staðnum.

Ræktunin á Friðheimum er vistvæn. Gróðurhúsin eru hituð upp með jarðhita og lífrænar varnir eru notaðar gegn meindýrum. Tómatarnir eru allir flokkaðir og pakkaðir á staðnum og merktir Friðheimum.

Sjá nánar heimasíðu Friðheima www.fridheimar.is

Smellið á myndirnar til að stækka þær og skoða betur

Senda ß vin

Loka