Heilsa og lÝfstÝll

Jˇlakaup Ý stˇrm÷rku­um

Jˇlakaup Ý stˇrm÷rku­um
Jólin eru á næsta leyti. Þessi yndislegi tími ljóss og friðar, breytist því miður alltof oft í andhverfu sína, umpólast og verður tími kvíða, erfiðleika og streitu. Allt okkar lífsmynstur gjörbreytist yfir hátíðardagana. Ómeðvituð tökum við þátt í hasarnum, rétt eins og það sé trúarleg skylda okkar.
 
Ef við tökum örlítið dæmi um hvernig við umpólumst í lífsmynstri er ágætt að líta ofan í innkaupakörfuna hjá annars heilsusamlegri konu, sem hleypur í gegnum stórmarkaðinn þann 23. desember. Neðst í körfunni má sjá mjólk, mikið af rjóma, nokkrar tegundir af ís og kannski ístertu. Smákökuboxin og suðusúkkulaðið skyggja á konfektkassann. Kartöflurnar liggja í kremju undir einni mjólkurfernunni og bíða þess spenntar að verða hjúpaðar sykri. Gosflöskurnar detta niður af grindinni undan innkaupakörfinni og valda alvarlegum umferðartöfum á annars þröngum göngum stórmarkaðanna. Það er lekur vökvi úr rækjupokanum af því að majónesdósin þrengir að honum. Körfueigandinn gæti hafa skellt nokkrum dósum af niðursoðnum ávöxtum inn á milli smjörlíkisins, svona rétt til að bragðbæta ísinn. Það glittir í rauð jólaepli. Einhverjir kunna að spyrja; ,,Og hvað er að þessari innkaupakörfu, Er hún ekki nákvæmlega eins og hún á að vera til þess að við getum haldið jól?”

Mikið rétt. þetta er hin fullkomna jólainnkaupakarfa. En þegar betur er að gáð sést lítið sem ekkert af fersku grænmeti. Jólamatseðill þjóðarinnar gerir alls ekki ráð fyrir fersku salati sem er kannski ekkert skrítið í ljósi sögunnar. Matarvenjur okkar eru byggðar á fornum hefðum sem sköpuðust á dögum torfbæja, matarsendinga frá Danaveldi, súrtunna og reykhúsa. Þessum hefðum má alls ekki raska, þrátt fyrir að í dag höfum við ótakmarkaðan aðgang að ísskápum og frystikistum. En í hjarta okkar erum við fullviss að jólin eru eyðilögð ef við breytum út af venjunni. Það þekkja þeir nú sem hafa reynslu af því að byggja upp jólahefðir með mökum sínum. Jólamaturinn er einfaldlega heilagur. ,,Salat! Við borðum bara rjómasalat, ekkert grænt gums með því” ,,Ój, rækjur og salatblöð. Er það ekki bara sumarkokteill”! Eflaust þekkja margir þessar setningar þegar kemur að því að ræða sameiginlegan jólamat í fyrsta skipti. Prestar hafa lýst því yfir í mikilli alvöru að rekja megi fjölda skilnaða í kringum jólahátiðina til ósættis í kringum jólahefðirnar.
 
Fyrir þá hugrökku sem þora að taka áhættur og vilja kannski fá meiri fjölbreytni á jólamatseðilinn er tilvalið að reyna að smygla uppáhaldssalatinu á jólaborðið (svo lítið beri á) og sjá viðbrögðin. Það er líka góð leið og friðsöm að semja um að báðir aðilar (eða allir, ef börnin eru komin á þann aldur að hafa sjálfstæðar skoðanir) fái að velja einn rétt á borðið eða skipta því á milli sín hvenær viðkomandi fær að hafa sinn rétt á borðinu. Kannski fær mamman að bjóða upp á eitthvað nýtt á aðfangadag en pabbinn á jóladag eða öfugt.
Auðvitað eru jólin hátíð hefðanna og ólýsanlega erfitt að ætla að breyta einhverju þar um. Höfum það samt í huga að grænmetið og holli maturinn fer ekki í jólafrí og líkami okkar þarf jafn mikið á honum að halda yfir jólahátíðina sem og aðra daga.
 
 
Margrét V. Helgadóttir
Til baka Senda ß vin

Senda ß vin

Loka