Heilsa og lÝfstÝll

Skˇlanesti­

Skˇlanesti­
Nú er skólaárið byrjað og börnin streyma með flottu skólatöskurnar sínar í skólann. Í töskunum er að sjálfsögðu hollt og gott nesti sem foreldrarnir eru búnir að útbúa fyrir börnin.
Boðið er uppá heitan mat í hádegi í mörgum grunnskólum í dag en ekki eru allir sem velja þann kost og eins eru skólar sem bjóða ekki upp á þetta fyrirkomulag.
Þrátt fyrir að þau fái hádegisverð þurfa börnin í flestum tilfellum að koma með nesti að heiman til að borða um klukkan 10 og svo aftur síðdegis. Í mörgum skólum er ætlast til að þau komi með ávexti eða grænmeti til að borða fyrir hádegi en sums staðar er boðið upp á áskrift af ávöxtum. Mikilvægt er að börnin borði oft yfir daginn, að minnsta kosti 5 sinnum og því er mikilvægt að þau fái hressingu kl 10 og aftur seinni part dags.
Mjög mikilvægt er að börnin séu að borða hollan og fjölbreyttan mat yfir daginn til að fá þá orku vítamín og steinefni sem þau þurfa til að komast í gegnum daginn. Fjölbreytt og hollt fæði samanstendur af kolvetnum, próteinum og fjölómettaðri fitu.
  • Trefjaríkar kornvörur, svo sem gróft brauð, haframjöl, kartöflur, pasta eða hrísgrjón (kolvetni)
  • Ávexti og grænmeti, bæði með máltíðum og á milli þeirra. (kolvetni)
  • Kjöt, fisk, egg eða baunir/linsur (prótein)
  • Mjólkurvörur, veljið frekar fitulitlar vörur og án viðbætts sykurs
  • Vatn eða hreina ávaxtasafa
  • Vítamín (lýsi)
Millibitarnir í nestiboxinu eru mikilvægir og þeir þurfa alls ekki að vera einhæfir
Ávextir eins og banani, appelsína, epli, mangó, avocadó, ananas, kiwi, pera, mandarína eða aðrir ávextir. Gott er að vera búin að skera ávextina niður. Meiri líkur eru á að þau sleppi ávextinum eða kaupi sér eitthvað annað ef þau þurfa til dæmis að taka hýðið af appelsínunni. Ber eru líka frábær í boxið. Jarðaber, bláber, vínber eða jafnvel rifsber eða krækiber sem börnin eru jafnvel búin að týna sjálf. Ávaxtasalat er líka hægt að útbúa til að taka með sér í skólann. 
Grænmeti eins og gulrætur, agúrkur, tómatar (strangt til tekið er tómatur ávöxturJ) og paprika. Sama á við um grænmetið varðandi niðurskurð. Það gerir grænmetið oft lystugra til dæmis þegar búið er að skera gulræturnar í ræmur. Einnig er auðvitað hægt að kaupa litlar gulrætur sem þarf þá ekki að skera niður. 
Fjölbreytnin í boxinu skiptir máli fyrir barnið svo það fái ekki leið á þvi að fá alltaf það sama, eða sömu 3 ávextina til skiptis. Hvernig væri að setja stundum með þurrkaða ávexti, eins og epli, aprikósur eða rúsinur. Döðlur eru líka sætar og góðar og henta vel í millimál. Harðfiskurinn er líka hollur og flestum finnst hann góður.
 
Auðvelt er að útbúa hollar orkustangir sem hægt er að geyma í frysta og eins er hægt að búa til muffins. Muffins þarf nefnilega alls ekki að vera óholl. Það er mjög auðvelt að útbúa hollt muffins sem inniheldur engan hvítan sykur. Bananamuffins með döðlum er hollt og gott og mjög saðsamt.
 
Ekki gleyma drykkjunum. Vatnið er að sjálfsögðu besti svaladrykkurinn. Minnið barnið á að drekka yfir daginn sérstaklega eftir útiveru. Börn finna ekki fyrir þorsta fyrr en að vökvatap hjá þeim er orðið talsvert. Sniðugt er að barnið fara með drykkjarbrúsa með sér í skólann og geti svo fyllt vatn á hann sjálft.
 
Frekari upplýsingar um skólanestið er til dæmis að finna á vef landlæknis
Höf:
Alma María Rögnvaldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Til baka Senda ß vin

Senda ß vin

Loka