Spergilkßl GrŠnmetisdagatal - Spergilkßl

Broccoli

Spergilkßl
Spergilkál eða brokkoli er vinsælt grænmeti, bæði næringarríkt og gott. Auðvelt er að rækta það hér á norðurslóðum en það er ekki eins viðkvæmt fyrir sveiflum í veðurfari og blómkál. Helst að það þoli illa langvarandi vætutíð á uppskeru tímanum.
 
Spergilkál er ekki eins viðkvæmt fyrir kálflugu eins og aðrar káltegundir. Spergilkál er vinnufrekt á uppskerutímanum, því mikilvægt er að það sé uppskorið á réttu þroskastigi og því nauðsynlegt að fara reglulega í gegn um garðinn.
 
Geymsluþol er takmarkað en það getur geymst að hámarki í hálfan mánuð ef það er kælt hratt niður í 0,5°C. Helstu afbrigði eru Lord, Marathon og Milady.

Geymsla

Spergilkál geymist allvel ef geymsluskilyrðin eru rétt. Besti geymsluhitinn er 0-2°C. Mikilvægt er að verja sperglana fyrir birtu og dragsúg. Spergilkáli hættir við þornun þannig að gott er að vefja það plasti eða geyma það í þeim umbúðum sem því er pakkað í af framleiðanda.

Notkun

Skerið um þriðjung neðan af stilkunum og flysjið þykka stilka. Séu stilkarnir þykkir má skera þá í tvennt eftir endilöngu til að stytta eldunartímann. Spergilkál er mest notað sem meðlæti með heitum réttum og hentar einkum vel með lamba- og kjálfakjöti. Það má oftast nota í rétti þar sem gert er ráð fyrir að nota blómkál og bragðast mjög vel með smjöri eða ofnbakað með skinkubitum og ostasósu. Spergilkál er mikið notað á Ítalíu og hentar vel með öllum ítölskum réttum. Soðnir sperglar sem vafið er innan í beikonsneiðar bragðast mjög vel með kjúklingi eða kalkún.

Má frysta spergilkál ?

Já, spergilkál hentar vel til frystingar. Það borgar sig að gera stórinnkaup á spergilkáli þegar verðið er lágt og frysta það til vetrarins. Sperglarnir eru snyrtir eins og lýst var hér að ofan, settir í sjóðandi vatn í 3 – 4 mínútur og snöggkældir í köldu vatni aður en þeir eru frystir. Blöðin mega gjarnan fylgja stilkunum.

Hvaða hluta er hægt að borða ?

Borða má allan spergilinn nema neðsta hluta stilksins. Hafið í huga að stór hluti næringargildisins liggur í stilkunum.

 

Næringartafla

Ætur hluti 70 %
Innihald í 100 g
Vatn 89 g
Orkurík efnasambönd
Prótein 3.3 g
Trefjar 3.6 g
Kolvetni 6.8 g
Fita 0.2 g
kj 176
kcal 42
Steinefni
Járn 1.5 mg
Kalk 100 mg
Vítamín
A Ret. ein 420 µg
B1 0.10 mg
B2 0.30 mg
Niacin 1.0 mg
C (askorbínsýra) 110 mg

Spergilkál er orkusnautt en ríkt af vítamínum og steinefnum. Eins og hjá blómkáli er stór hluti næringargildisins fólginn í stilknum og blöðunum, þannig að einnig á að neyta þeirra. Spergilkál er einnig trefjaríkt og góður kostur í stað spínats fyrir fólk sem þjáist af járnskorti.

Senda ß vin

Loka